Flýtilyklar
Bíldsárskarðið enn einn langhundurinn frá formanninum
Formaður Léttis Ásta Ásmundsdóttir hefur ritað grein á heimasíðu
ÍBA. Greinin er full af rangfærslum og mótsögnum. Greinin er hér: http://www.iba.is/?m=news&f=viewItem&id=4
Það yrði allt of langt mál að elta ólar við allt sem í greininni kemur fram en ekki er hjá því komist að segja
neðangreint, í allt of löngu máli reyndar. Þið reynið að fyrirgefa það en ég gat ekki
stillt mig.
1. Ásta: „dapurlegt að heimasíða Íþróttabandalags Akureyrar sé
vettvangur skrifa hans“
Ég hef ekki ritað neitt á heimasíðu ÍBA. Vettvangur skrifa Ástu er hins vegar heimasíða
ÍBA og er því rétt að ég fái að svara henni á sama vettvangi. Ég hef hins vegar ekki skrifað
annars staðar en á heimasíðu KKA og Ásta hefði hæglega getað skrifað á heimasíðu Léttis en látið
heimasíðu ÍBA vera.
2. Ásta: „Í þessu tiltekna máli er aðalatriðið þetta: Akstur
vélknúinna ökutækja utan vega er bannaður!“
Ásta hefur alveg misskilið málið þetta snýst ekki um utanvegaakstur. Hjólamennirnir voru ekki utan
vega. Vegur er skilgreindur í umferðarlögum og er sama skilgreining notuð í lögum um náttúruvernd.
Hjólamennirnir voru á vegi, sem notaður hefur verið frá upphafi Íslandsbyggðar. Það er rangt hjá Ástu að þessi akstur sé skilgreindur sem utanvegaakstur,
nýlegir dómar taka af öllu tvímæli um það. Hjólamennirnir voru í fullum rétti og brutu ekki gegn neinum
lögum. Náttúruverndarlög rýmkuðu heimildir manna til að fara um slíka vegi og það stríðir gegn tilgangi laganna
ef einn hópur manna ætti að hafa rétt til að nota veginn en ekki aðrir. Málið snýst um jafnræði en ekki
utanvegaakstur.Svo má spyrja, hvar voru þá hestamennirnir? Voru þeir utan
vega, það hlýtur að vera ef þessir aðilar hafa mæst. Skv. náttúruverndarlögum er slíkt ekki vel
séð.
3. Ásta: „Á því byggir kæra
lögreglu.“
Hvaða kæra, hvaðan hefur Ásta þessar upplýsingar? Hefur hún séð kæru, það væri
eitthvað undarlegt ef hún frétti af kærum frá lögreglu á undan sakborningum. Hvernig dettur Ástu í hug að setja
fram svona fullyrðingar, teknar úr lausu lofti. Halda því fram að einhverjir menn séu orðnir sakborningar þegar svo er
ekki. Engin ákæra hefur verið gefin út. Landeigandi kom á staðinn og sagði lögreglu að hann hefði ekkert
á móti því að hjólamennirnir færu um landið. Lögregla bjóst ekki við að aðhafst yrði meira í
málinu.
4. Ásta: " Leiðin yfir Bíldsárskarð er að ég best veit ekki gömul þjóðleið. Farið var að reka fé úr Eyjafirði yfir skarðið í sumarbeit fyrir c.a. 50 árum, en auk þess hafa hestamenn notað þessa slóð í áratugi á leið sinni austur í Sörlastaði í Fnjóskadal. Svo kölluð þjóðleið yfir heiðina liggur annarsstaðar. „
Gamlir vegir liggja á nokkrum stöðum yfir Vaðlaheiðina. Fjölfarnasta leiðin á hverjum tíma hefur smátt og smátt færst norðar. Fyrsta og elsta leiðin liggur um Bíldsárskarðið. Þá kom Þingmannavegur um háheiði, frá Leifsstöðum að Hróarsstöðum. Sú leið var fjölfarin fram undir 1900. Steinbrúin, sem er á þeirri leið, var hlaðin um sumarið 1871. Þetta er vafalaust sú leið sem Ásta heldur að sé „svo kölluð þjóðleið“ sem liggja á annarsstaðar yfir heiðina. Árið 1882 (til 1890) var svo hafist handa við að gera veg ofan við Varðgjárbæina en neðan við hamrabeltið langa, um Bröttubrekku og upp á brúnina sunnanvert við Geldingsárdragið og þaðan þvert austur yfir heiðina og niður sunnan við túnið á Skógum. Laust fyrir 1930 var svo hafist handa við nýjan veg yfir heiðina og var það akvegurinn yfir Steinsskarðið. Skarðið er kennt við „Stóra-stein“, Grettistak, trúlega eitt hið mesta á Norðurlandi, skammt niðri í brekkunni innan skarðsins. Um 1964 var svo rudd jeppaslóð í gegnum Víkurskarðið. Nú er Víkurskarðið fjölfarnasta leiðin yfir Vaðlaheiðina. Brátt mun þó fjölfarnasta leiðin verða í gegnum fjallið.
Það þarf nú ekki nema bara að horfa á Vaðlaheiðina til að sjá að um Bíldsárskarðið hlýtur að hafa legið vegur um aldir. Þetta er bara svo augljós leið landfræðilega séð. Þetta sáu forfeður okkar auðvitað líka. Leiðin yfir skarðið er vörðuð, og var vitanlega þekkt og farin þegar á söguöld. Mannaferða um Bíldsárskarðið er m.a. getið í Ljósvetninga sögu, Víga-Glúms sögu og Sturlunga sögu. Ég get ekki setið á mér að rekja örlítið frásögnina í Víga-Glúms sögu. Það var svo að Skútu, sem bjó við Mývatn, og Glúmi, sem bjó að Þverá í Eyjafirði, var lítt til vina eftir að Skúta skilaði vegna sundurlyndis kvonfangi sínu, dóttur Glúms. Báðir voru þessir menn kenndir við víg þannig að þetta gat bara farið á einn veg. Eitt sumarið hugði Víga-Skúta sér gott til glóðarinnar og eftir undirbúning fór hann með þrjá tugi manna eftir þjóðleiðinni um Bíldsárskarðið og stöðvaði lið sitt á Rauðahjalla. Rauðihjalli er nú nefndur Geldingahjalli. Vegurinn yfir Bíldsárskarðið er tvískiptur Eyjafjarðarmegin. Nyrðri leiðin liggur upp frá Festakletti, sem er rétt ofan við gamla þjóðveginn, norðan við Kaupang. Leiðin liggur sunnan við Kúalæk upp á milli bæjanna Leifsstaða og Fífilgerðis. Beygt er til suðurs ofan við Fífilgerði og ofan við Krókstaði er lagt á heiðina. Syðri leiðin liggur upp hjá bæjunum Svertingsstöðum og Brekku og síðan skáhallt norður og upp heiðina eftir svonefndum Sneiðingi að Bíldsá. Efst á Sneiðingi mætast leiðirnar. Gerður var vegur upp á Sneiðinginn af landi Kaupangs og er það nýr vegur og ekki forn. Leiðin liggur upp á nokkra hjalla. Af Sneiðingi er farið upp á Selhjalla. Selhjalli dregur e.t.v. nafn sitt af býli sem eitt sinn stóð niður með ánni neðan við Sneiðing og hét Kaupangssel. Ofan við Selhjalla er stutt brekka upp á lítinn stall, sem Steinahjalli heitir. Á næsta hjalla þar fyrir ofan, Rauðahjalla (nú Geldingshjalla), sitja menn Víga-Skútu gráir fyrir járnum og illir á svip. Skúta ákveður að fara einn inn Sneiðinginn að kanna málið. Hann rekst um síðir á Glúm. Í rimmu þeirra fellur Glúmur niður í gilið. Skúta stekkur þar á eftir og sér kápu Glúms og leggur til hennar en heyrir þá ofan við sig Glúm segja háðslega: "Lítil fremd að spilla klæðum manna."Glúmur kemst undan og safnar 60 manna liði. Nokkrir úr liði Glúms ná Skútu sem þykist vera að sinna sauðum og kemst undan. Glúmur kemur svo að með sitt lið þar sem Skúta var á Rauðahjalla í Bíldsárskarði. Glúmur spottaði Skútu fyrir að látast vera sauðreki þeirra Eyfirðinga. Glúmur sá þó að erfitt var að sækja að Skútu þó hann væri með helminga færra lið. Hann tók þá skynsamlegu ákvörðun að láta af ófriði og fór hver til síns heima.
Ég óska þess einlæglega að okkur og hestamönnum muni farnast eins skynsamlega og þeim
vígakörlum, Glúmi og Skúta, í þetta skiptið. Í stríði vinnur
enginn. Við viljum fara um þjóðleiðir og gamla vegi í friði og sátt við hestamenn og
aðra. Við viljum samræma samskiptareglur með hestamönnum. Við viljum ekki vera á reiðvegunum
ykkar. Við munum hins vegar aldrei gefa eftir gamlar þjóðleiðir þar sem allir mega vera,
líka hjólamenn.
5. Ásta segir að ég ráðist almennt að hestamönnum
það er ekki rétt. Ég óska eftir samstarfi og góðum samskiptum. Svo dapurlega vill til
að sumir í stjórn Léttis virðast ekki vera til umræðu um slíkt. Hjólamenn hafa þurft að
þola ýmislegt af hálfu hestamanna, þeir hafa verið grýttir, barðir, ausnir skömmum
og svívirðingum, stjórn Léttis hefur óskað eftir því við bæinn að leyfi KKA fyrir Íslandsmótum
í Enduro verði afturkölluð, stjórn Léttis hefur óskað eftir við bæinn að hann taki
félagssvæðið af KKA, þ.e. KKA missi þar MX, RC og barnabrautir sínar, félagsheimili og
annað sem félagið hefur þar byggt upp fyrir tugmilljónir króna, Léttir hefur kært félagsmenn
KKA, kallað til lögreglu í mótum, hestamenn hafa strengt bönd yfir vegi sem skaðað hafa
mótorhjólamenn, Hestamaðurinn hefur kært hjólamenn fyrir að aka um forna þjóðleið og fær fullan stuðning
stjórnar Léttis að því er helst verður skilið af skrifum Ástu. Engu
að síður koma hjólamenn ævinlega fram við hestamenn þegar þeir mætast af stakri kurteisi stöðva hjól sín og drepa
á. Ég leyfi mér að spyrja hvað höfum við gert ykkur? Þið viljið ekki að við
séum á félagssvæði KKA, þið viljið ekki að við séum á vegum, eða
þjóðleiðum. Ég leyfi mér enn og aftur að lýsa eftir viðræðum og samstarfi við
hestamenn. Ég tel að tími sé kominn til að slaka á og opna augun. Hjólamenn munu ekki
gufa upp. Hestamannafélög og KKA eru útilífsfélög. Við eigum sameiginlega hagsmuni
við að halda opnum stígum og vegum um landið til að ferðast um. Þjóðleiðir verða aldrei
einkavegir hestamanna. Hestamenn og hjólamenn munu hittast á ferðum sínum um landið og þá verður að fylgja ströngum
samskiptareglum. Það er svolítið erfitt að halda uppi og búa til slíkar reglur einhliða, það væri gott
að fá innlegg frá hestamönnum um efni slíkra reglna. Hestamenn verða vitanlega að vanda sig, taka
ábyrgð og gæta að sér. Þjálfa sína hesta rétt, sjálfan sig og vera í réttum
búnaði. Það er með ólíkindum að fara á bak þessum skepnum í mesta
lagi með einn opinn hjálm sér til hlífðar. Á því sviði geta hestamenn lært mikið af
hjólamönnum. Það má karpa um hvorir valda meira sliti á þessum vegum en það þjónar engum
tilgangi. Félögin eiga að taka höndum saman um að halda við veginum og vinna saman að því að halda honum opnum
í góðu samkomulagi við landeigendur. Við eigum að vera þakklátir landeigendum en ekki
drambsamir. Þeir hafa ekki amast við umferð mótorhjóla um veginn. Hins vegar eru þeir
orðnir langþreyttir á umgengni hestamanna, hestar fara sínar leiðir niður að austan og eru komnar margar götur og
rákir, hestar tæta upp áningarstaði og stóð braut niður hlið á leiðinni. Kvartanir
hafa borist Létti en ekki hefur verið brugðist við þeim ennþá. KKA og Léttir nota þennan veg og miklu vitlegra
væri að félögin myndu afmarka veginn betur þannig að ekki væru farnar fleiri slóðir en þörf er á og sæju til þess að
félagsmenn sínir sýndu landinu og eigendum þess þá virðingu að ganga þarna vel um til að tryggja áframhaldandi
not. Það væri mun betri leið en að félögin séu að rífast sín á milli um land og
veg, sem hvorugt félagið á eða hefur umráðarétt yfir.
Allt sem ég hef hér að ofan sagt um landafræði og sögu, er að finna í Íslendingasögum og í Ferðum, sem eru stórkostleg blöð útgefin af Ferðafélagi Akureyrar og á kortum Ferðafélagsins af leiðinni yfir Bíldsárskarð.
Athugasemdir