Flýtilyklar
Bjarki Sigurðsson íþróttamaður ársins hjá KKA 2010
KKA útnefndi Bjarka Sigurðsson íþróttamann ársins 2010. Þetta er í 3. sinn sem Bjarki hlýtur þennan titil.
KKA óskar Bjarka til hamingju með titilinn og þakkar honum samstarfið á árinu sem er að líða og megi honum farnast vel og brotalaust á árinu sem er að hefjast.
Bjarki Sigurðsson er fæddur 23. nóv. 1992 og var því 18 ára á síðasta ári. Bjarki er til fyrirmyndar bæði innan og utan íþróttasvæða, í leik og starfi sem og keppni.
Á síðasta ári hóf Bjarki keppni í MX2 flokki en hann hafði keppt í 125cc flokki 2008 og 2009. Hann náði frábærum árangri í sinni fyrstu keppni og hafnaði í 2. sæti en hann viðbeinsbrotnaði svo hann var úr leik það sem eftir var keppnisárinu.
Ferill Bjarka er svona síðustu ár:
2006: Þetta var hans fyrsta keppnisár, þá 14 ára, og keppti hann í 85cc flokki. Hann hafnaði í
4.sæti eftir tímabilið.
2007: Næsta ár keppti hann líka í 85cc flokki og þá endaði Bjarki í 2.sæti eftir
tímabilið. Bjarki keppti með landsliðinu fyrir hönd Íslands í motocrossi í Svíþjóð.
Þetta ár hóf hann keppni í Snocross, og endaði þar í 2. sæti í unglingaflokki.
2008: Bjarki hóf keppni í 125cc flokki og endaði í 4. sæti eftir tímabilið. Þetta árið keppti hann
í fyrsta skipti í Enduro og var í B-flokki. Þar endaði hann í 2.sæti og var valinn nýliði ársins í
enduro. Hann varð Íslandsmeistari í Snocrossi í unglingaflokki, og var þá valinn í fyrsta skiptið
Íþróttamaður ársins hjá KKA.
2009: Þetta keppnistímabil var með afbrigðum glæsilegt. Bjarki keppti í 125cc flokki í annað sinn og varð Íslandsmeistari í þeim flokki, ásamt því að verða Íslandsmeistari í Enduro-tvímenning. Hann keppti líka í Snocrossi og varð Íslandsmeistari í Sport flokki. Bjarki fór með landsliði Íslands til Svíþjóðar og tók þar þátt í heimsmeistaramóti í Snocrossi. Hann var þar einungis tveimur sætum frá því að komast í úrslit. Hann var valinn íþróttamaður ársins hjá KKA í 2. skiptið. Hámarki náði svo tímabilið þegar hann var útnefndur akstursíþróttamaður ársins hjá landssamtökunum MSÍ.
Athugasemdir