Bréf frá Arnaldi Bárðarsyni

Vefnum hefur borist skemmtilegt og fróðlegt bréf frá Arnaldi Bárðasyni.     Stjórn KKA tekur heilshugar undir viðhorf Arnaldar um samstarf á milli hestamanna og KKA.      Arnaldi er þakkað innleggið. Sælir vefskrifarar, ég get ekki orða bundist eftir þessa umræðu og tel að hér hafi góðir menn gleymt sér í hita leiksins og mörg orð betur ósögð.             Mér finnst merkilegt að horfa á átökin í því ljósi að vélhjólamenn beita hér  sömu rökum og hestamenn hafa notað í gegnum árin, það er krafa um að fá að ferðast óhikað um gamlar þjóðleiðir. En það hefur iðurlega verið á brattann að sækja fyrir hestamenn að fá að fara gömlu góðu leiðirnar sem gengnar kynslóðir fóru án allra takmarkana. Bændum sem girða vilja af búfé sitt hefur oft verið ami af umferð hestafólks og þeir meinsömustu lokað öllum leiðum. Hestamenn hafa líka á stundum sýnt af sér tillitsleysi og yfirgang og talið heimilt að fara þó bönn séu til staðar. Þannig minnist ég t.d. messureiðar til Saurbæjarkirkju þar sem skógræktarfólk hafði lokað gamalli leið Djúpadalsmanna  til helgihaldsins og ekki annað fært en að grípa til naglbítsins.  Og sjálfur þekki ég af eigin raun hve freistandi er að ríða bakkana fram að Hrafnagili þó ég viti vel að það sé í óþökk eins landeigandans, um sumt getur maður bara ekki stillt sig.            Ég tel að ljóst sé að hjólasport sé komið til að vera og hestamenn á ferð muni mæta í auknum mæli vélfákum og þar á ég við leiðir þar sem heimilt er að vera á slíkum fákum. Ætla ekki að hafa orð um Bíldsárskarð en nefni t.d. veg út á Flateyjardalsheiði þar er vinsælt að fara með hrossarekstra og heimilt að aka vélhjólum. Sama á væntanlega við um paradís okkar hestamanna Sörlastaði, þangað liggur akvegur sem hestamenn fara bæði ríðandi og með trússbíla sína til að ferja veisluföng sín til góðrar dvalar. Ég sá t.d. nú á dögunum að gamlir sveitungar mínir eru búnir að malbera slóðir meðfram Bakkaánni langleiðina að Snæbjarnarstöðum og þar aka menn á bílum, bæði sumarhúsaeigendur og gangnamenn að hausti eða bændur að flytja fé í afrétt að vori.  Þarna gæti verið meira en líklegt að mæta vélhjólum og ólíkt væri nú betra ef að þar ríkti gagnkvæm tillitssemi og skilningur.            Ég þekki af eigin raun hve margir ökumenn  bifreiða sýna  hestafólki litla tillitssemi og jafnvel hreina andúð. Ég kann ýmsar sögur af ökumönnum bifreiða sem hafa brjálast við að sjá hross á eða við veg og hafa sýnt af sér vítaverða hegðun svo sem glannaakstur, inngjafir flaut eða öskur út um bílglugga. Við hestamenn þurfum á stundum að fara um vegi og slóðir þar sem ýmis önnur umferð er og við þurfum þar framar öllu á tillitssemi annarra að halda og því þurfum við líka að sýna okkar besta viðmót.             Um akstur á svonefndum reiðvegum þarf ekki að hafa mörg orð, slíkur akstur er óheimill. Hins vegar verður að segjast að reiðvegamál hér á Akureyri hafa verið með nokkrum fádæmum. Fyrst ber að nefna að sumt hefur verið vel gert þar á ég við nýlega reiðleið við Mýrarlón og leið gegnum Naustaborgir. Hins vegar held ég að hestamönnum almennt hafi þótt undarlegt hversu fljótt reiðvegir hverfi úr notkun sem slíkir og verði að verktakavegum ef svo ber undir. Þannig fór t.d. með reiðveg ofan og sunnan golfvallar, reiðleið á Hömrum verður oft að einkavegi Skáta og umsvifa í kringum tjaldstæði þeirra. Þannig var t.d. sjálfsagt að loka reiðleiðinni á Hömrum með söluskúr þegar einhverjar útihátíðir voru. í sumar var t.d. allt í einu komið víkingskip með blaktandi seglum við reiðleiðina á Hömrum í annan stað var búið að kveikja varðeld við reiðleið í Naustaborgum og haldin þar hátíð með börnum. Þá er ótalið það klúður að reiðleið sem liggur milli hesthúsahverfa bæjarins skarist við neðri krúsirnar, það verður að laga. Ég hef  gert athugasemdir til Akureyrarbæjar vegna merkinga á reiðleiðum í bæjarlandinu, það ætti t.d. að setja upp skilti þar sem reiðleið fer þvert á vegi til að vara ökumenn við hestaumferð, ég hef lítið séð af slíkum skiltum.  Þá vil ég nefna að í Naustaborgum er t.d.  ekki greinilegt hvað sé reiðleið og hvað hjóla- og göngustígur. Og hafi hestamenn orðið reiðir að mæta vélfákum þá getur sá er hér ritar vitnað um að göngufólk sem mætir hestamanni á göngustíg er almennt og yfirleitt snarbrjálað. Nýlegt dæmi get ég nefnt, nú   í sumar reyndi roskin kona að hlaupa mig og hesthóp minn um koll þegar við höfðum stolist inn á stíg í Hamralandi, auðvitað eiga hestar að vera á reiðstígum. En þá kemur annar vandi það eru svo margir aðrir á blessuðum reiðstígunum. Þar er fyrst til að taka göngufólk, reiðhjólagarpa og síðast en ekki síst hestamenn sjálfa á bílum sínum. Já tókuð þið eftir þessu, ég get nefnilega vitnað um það að sex sumur eða svo sem ég hef verið með krakka á vegum reiðskólans í hestatúrum á Hamraborg að þá mæti ég flesta daga einhverjum hestamönnum akandi á reiðleiðunum. Suma þeirra hef ég ekki séð á hestbaki í mörg ár en er þess kunnugri bílum þeirra. Ég hef ekki glaðst neitt sérlega í hjarta mínu yfir akstri þeirra því þeir troða reiðveginn niður svo hann verður eins og steypa og það er ekki gott fyrir þreytta hestafætur.  Sumir hestamenn meira að segja reka hestana á bíl og ég man eftir manni sem ók mikið reiðleiðina og teymdi hesta út um bílgluggann og fannst mér athæfið hvimleitt og hestamennskan léleg. Sumir hestamenn telja reiðleiðir líka henta til heyflutninga. Þá má líka nefna að þegar sem mestu framkvæmdirnar voru í Naustahverfi að þá var aðal tjaldstæði bæjarins á Hömrum og aðkoman að því lokuð í gegnum Naustahverfi. Þá mætti ég oft húsbílum og stórum bílum með húsvagna á reiðleiðinni og þótti það ekki fyndið. Kvartaði þá reyndar til framkvæmdadeildar og bað um lagfæringar og varð lítið um úrbætur.             Þrátt fyrir að mæta öllu þessu áreiti sem stundum hefur pirrað mig, já ég verð að gera þá játningu, þá hef ég samt heilsað öllum sem ég mætti með ljúfmennsku og gleði. Hló þó stundum með sjálfum mér að þeirri tilhugsun að ég henti hrossataði í einhvern jeppann, af því varð þó ekki. En ég gerði reyndar fyrir nokkru þá uppgötvun sem var í sjálfu sér merkileg, að ég var pirraðri yfir umferðinni en hrossin, en þau eru líka svo miklir öðlingar annað en við mannskepnurnar.  Engin þarf þó að velkjast í vafa um hve mikil ábyrgð það er að gæta barnhóps á hestbaki og hafði ég því oft áhyggjur en hinir lífsreyndu hestar láta ekki slá sig út af laginu, halda sínum takti, í einni röð þó ég, umsjónarmaðurinn,  fái aukin hjartslátt yfir einhverju sem er ekki neitt.  Af fenginni reynslu get ég sagt að þrumandi traktorar og ýmis ökutæki sem sannarlega er ami af hafa ekki valdið óhöppum, eitt vont óhapp man ég frá liðnum árum og mun aldrei gleymast. Tamningar hestamanns sem ekki réði á nokkurn hátt við sitt verkefni. Stjórnlaus hestur og tillitslaus knapi skullu fyrirvaralaust á barnahópi svo börn duttu í götu og meiddust, skelfilegt atvik sem sýnir að ýmsar gerðir hestamennsku eiga litla samleið.             Sannarlega er þarft að skerpa á reglum um ýmsa umferð svo sem vélhjólaumferð en ég tel líka að hestamenn þurfi að taka sér tak hvað varðar eigin umferð og umgengi ýmsa  í annars ágætu sporti. Er t.d. hægt að gera þá kröfu að maður megi stökkva á bak ótömdu tryppi og láta það hlaupa með mann svo sem því sýnist og kalla það tamningar. Verður ekki hreinlega að afmarka einhver svæði undir frumtamningar? Er krafa okkar hestamanna um sífellda kyrrð og ró þar sem okkur langar til að vera raunhæf? Og hvað með þá iðju að svæla hrossum eitthvað frá hesthúsi og láta síðan allt gossa, helst til baka heim eða eitthvað út í buskann. Þurfa hestamenn ekki að skoða eigin akstur á reiðvegum, ég veit reyndar að sumir þurfta að fara um reiðleið til að komast að hestagirðingum sínum og á ekki við þá umferð.    Í öllu falli má ljóst vera að stríð milli einhverra hópa skilar engu, þar er eina leiðin samtal og samningar og trúi ekki öðru en meginþorri hestamann vilji og kjósi slíkt.  Við þá sem eru hræddir á hestbaki við áreitið stöðuga úr ýmsum áttum, fáið ykkur þægari og traustari hesta þá verður lífið betra. Með vinsemd. Arnaldur Bárðarson

Athugasemdir

Svæði

KKA Akstursíþróttafélag

Stapasíða 13c - 603 akureyri
Kt: 420296-2319 - Banki: 566-05-442538 - VSK nr. 91548