Leiðin yfir Bíldsárskarð

Formaður KKA fjallar um þjóðleiðina yfir Bíldsárskarð,  hestamenn og nýlega kæru til lögreglunnar vegna aksturs hjólamanna á þjóðleiðinni.


Leiðin yfir Bíldsárskarð er fyrrum alfaraleið milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals.   
Farinn var götuslóði upp hjá frá Fíflilgerði að hestarétt og þaðan upp Sprengibrekku, brattasta hluta leiðarinnar.    Á hjalla ofan hennar var farið suður yfir Bíldsá og upp sneiðing að Biskupshellu á vesturbrún Vaðlaheiðar og er þá komið á þann hluta leiðarinnar sem notuð er nú.   Síðan er farið austur yfir Flóahrygg og áfram yfir Axlir. Leiðin endar á þjóðvegi neðan við tættur af Grjótárgerði í Fnjóskadal, sem er skammt norðan við Illugastaði.    

Öll leiðin frá vatnaskilum og niður í Fnjóskadal er í landi Fjósatungu og Brúnagerðis í Fnjóskadal.   Þetta er forn þjóðleið.   Löngum var farinn vegur sem lá í landi Kaupangs rétt við land Þórustaða og svo upp brekkuna og upp á veg sem lá þverrt í fjallinu og norður og inn á þjóðleiðina sem lýst var að ofan.   Fjallavegasjóður keypti síðar landspilduna þ.e. umræddan veg um Kaupangslandið og spildu alveg norður að Bíldsá þar að þar sem þjóðleiðin lá yfir Bíldsánna og áður hefur verið lýst.   
Vegur var gerður upp á gamla veginn og síðan inn á fornu þjóðleiðina.   Sumir hestamenn vilja eigna sér alla leiðina frá Eyjafjarðarbraut alveg austur í Fnjóskadal,  sem er einfaldlega rangt.   Það skýtur mjög skökku við að gera þjóðleið, sem öllum landsmönnum var heimilt að fara,  að einkavegi fyrir hestamenn.     

Eyjafjarðarsveit hefur skilgreint slóðann  sem Fjallvegasjóður keypti sem reiðleið (en samt með þeim fyrirvara vegna athugasemda við skipulagið að leiðin sé ekki eingöngu fyrir hestamenn).      Það má spyrja sig að því hvort eðlilegt sé að opinberir sjóðir eins og Fjallavegasjóður sé notaður til að kaupa upp land undir veg sem lagður er að þjóðleið og vegaspottinn að þjóðleiðinni svo skilgreindur sem reiðleið?     Er þá hægt að kaupa 50 m spotta beggja vegna við sprengisandsleið og skilgreina það sem hjólreiðaleið þannig að enginn komist 250 km þar á milli nema þá hjólreiðamenn?    Búið er að setja blátt reiðleiðarmerki neðst við Eyjafjarðarbrautina en það vantar merki sem segir að reiðleið sé lokið þ.e. þegar þessari skilgreindu leið Eyjafjarðarsveitar lýkur,  þ.e. við Bíldsánna.     

Ef menn vilja halda þessu merki til streitu verða hjólamenn einfaldlega að finna sér aðra leið upp á þjóðleiðina,  sem er vitanlega afkáralegt.     Hólmgeir Valdimarsson, hestamaður,  kærði nýlega þrjá hjólamenn sem voru á þjóðleiðinni austan í heiðinni.   Hólmgeir sagðist eiga landið sem vegurinn lægi um.   Það eru rangfærslur, svokölluð vísvitandi lygi.   Hólmgeir eða hans fjölskylda á land hinum megin við gilið.   Eigendur Fjósatungu eiga landið undir veginn og höfðu þeir samband við Hólmgeir eftir að þeir höfðu heyrt þessa vitleysu í honum og leiðréttu þetta.   Kom þá í ljós að Hólmgeir gerði sér fullkomlega grein fyrir því að þetta var tómt rugl í honum.     Bóndinn í Fjósatungu segir að hann hafi engar athugasemdir við umferð motorhjóla um veginn.     Skiltið að austan hafi verið sett upp í hans óþökk,  enginn hafi borið það undir hann,  og hann skilji ekki grundvöllinn fyrir því.      Hann hefur reyndar margoft kvartað yfir vondri umgengni hestamanna um landið,   þeir hafi bæði skemmt landið,   misst hesta um tún hans og skilji eftir spotta og bönd sem geta verið hættulegir,  bæði mönnum og sauðfé.      Hestamenn hafi lofað að sá í það sem þeir hafa skemmt en ekki enn orðið neinar efndir.  Þeir sem Hólmgeir kærði munu nú athuga að kæra hann til baka fyrir tilefnislausa kæru og hugsanlega vísvitandi rangan framburð fyrir lögreglu.     Stjórn KKA lítur þetta mál alvarlegum augum.      

KKA átti um árabil gott samstarf við hestamenn um þessa leið félagið sá m.a. um að grjóthreinsa leiðina og engir árekstrar urðu.    Eftir að ný stjórn tók við með Ástu Ásmundsdóttur sem formann hefur sigið á ógæfuhliðina og hestamenn sumir vilja einoka alla leiðina,  þ.e. þjóðleiðina yfir skarðið.     Þetta finnst KKA ósanngjarnt.    Stjórn KKA gerir sér fullkomlega grein fyrir því að meirihluti hestamanna vilja ekki fara með slíku ofríki að þeir telji sig eina mega fara um gamlar þjóðleiðir.    Langflestir hestamenn eru kurteisir og þakka tillitssemi sem félagsmenn KKA sýna þeim á alfaraleið.   Það hefur þó því miður komið fyrir að einstaka hestamenn hafi verið mjög dónalegir í orðum og æði við hjólamenn, sem hafa stöðvað hjól sín af tillitssemi við þá.   Meira að segja hefur það komið fyrir að hestamaður hefur notað písk sinn á hjólamann,  þar sem hann hafði stöðvað hjól sitt af tillitssemi við níðinginn,  og einu sinni voru hjólamenn grýttir þegar þeir voru að ýta hjólum sínum ganglausum af tillitssemi við hestamenn.      Það hefur meira að segja komið fyrir að maður, sem kallaði sig hestamann,  skakklappaðist úr sumarbústað sínum og staulast kófdrukkinn upp í bifreið sína til að aka að motorhjólamönnum, sem voru að koma niður af heiðinni að austanverðu til að bölsótast af ótrúlegum dónaskap yfir meintum lögbrotum hjólamanna!     

Það er fullkomlega ástæðulaust að þessir tveir hópar standi í illdeilum.    Hesta- og hjólamenn vilja nota landið til útivistar og geta mjög auðveldlega lifað saman í sátt og samlyndi og barist saman fyrir sameiginlegum hagsmunamálum sínum.   Því vitanlega hafa hesta- og hjólamenn sameiginlega hagsmuni af því að nýta landið en pakka því ekki inn í bómull og gljápappír og tala bara um það á kaffihúsum úr fjarlægð en banna öðrum alla notkun þess.     Stjórnin mun senda fyrirspurn um það til Vegagerðarinnar hvers vegna bannmerkið sé uppi að austan og hver staðan sé á þessum vegaslóðum að vestan.     Hvers vegna á að banna einum hópi að fara gamla þjóðleið,  en allir aðrir,  bílar,  fjórhjól, hestamenn,   mega fara þarna yfir en ekki motorhjól??    Er þetta málefnalegt bann,  sem var ekki einu sinni rætt við landeigandann?    

Stjórnin vinnur að því að ná öllum bannskiltum niður af þjóðleiðinni,   ef það gengur ekki að vestan mun verða fundin önnur leið en eftir veginum um Kaupangslandið upp á þjóðleiðina sem motorhjólamenn geta notað.Þorsteinn Hjaltason,  formaður KKA.


Athugasemdir

Svæði

KKA Akstursíþróttafélag

Stapasíða 13c - 603 akureyri
Kt: 420296-2319 - Banki: 566-05-442538 - VSK nr. 91548