N1 Íslandsmótaröðin í Ískrossi á Mývatni

Nú eru tæpar tvær vikur í fyrstu umferðina í N1 Íslandsmótinu í Ískrossi sem fram fer á Mývatni þann 17. janúar næstkomandi Búið er að opna fyrir skráningu á www.msisport.is og lýkur skráningu á miðnætti á þriðjudagskvöldið 13/1. Keppnisgjöld eru kr. 5000 í hvern flokk, en keppt verður í þremur flokkum, Opinn flokkur þar sem skrúfur og ísnálar eru leyfilegar, Vetrardekkjaflokkur þar sem eingöngu fjöldaframleidd nagladekk eru leyfð og svo Kvennaflokkur á fjöldaframleiddum nagladekkjum. Athugið að á árinu 2009 mun MSÍ ekki gera neinar undantekningar varðandi skráninguna, henni lýkur þegar henni lýkur og ekkert væl eftir það. Notast verður við AMB tímatökusendana eins og í fyrra, en þá verður hægt að leigja bæði hjá Nítró í Reykjavík og á Akureyri fyrir þá sem ekki eiga senda. Fyrirkomulag keppnanna verður með sama sniði og í fyrra, þ.e.a.s. opnar tímatökur í hverjum flokki þar sem menn og konur vinna sér inn rásstað í samræmi við tíma og svo þrjú hít í hverjum flokki. Stigagjöf er sú sama og í motocrossi 25 stig fyrir fyrsta sæti, 22 fyrir annað, o.s.frv. Notast verður við startljósin eins og í fyrra þar sem almenn ánægja var með þann búnað.

Í fyrra reyndist ekki áhugi fyrir Opna flokknum og því áskilur Akstursíþróttafélag Mývatnssveitar sér rétt til að fella þann flokk niður ef ekki verða a.m.k. 6 skráðir keppendur í fyrsta mót.

Akstursíþróttafélag Mývatnssveitar hefur gert samning við N1 um að gerast aðalstyrktaraðili Íslandsmótsins og munu ýmis aukaverðlaun verða í boði, auk glæsilegra bikara fyrir fyrstu 3 sætin í hverjum flokki.

Fyrir þá sem halda að hlýnun jarðar sé að gera okkur lífið leitt skal upplýst að nú er u.þ.b. 35 cm þykkur ís á Mývatni og frábærar aðstæður til ísaksturs.

Hægt er að bóka gistingu á Sel Hótel Mývatn í síma 464-4164 eða senda e-mail á myvatn@myvatn.is

Fyrir frekari upplýsingar má hringja í Stefán 895-4411, Ragga 897-4164 eða Krissa 856-1160.

Kveðja úr Mývatnssveitinni,  

Stefán Gunnarsson

P.s. heyrst hefur:
  • að Finnur Bóndi mæti helillur á KTM 144
  • að Kári #46 ætli að sigra öll mótin í ár
  • að Péturssynir úr Hafnarfirði séu ekki sammála því
  • að Signý #34 fái harða samkeppni í Kvennaflokknum
  • að Opni flokkurinn sé kallaður kreppuflokkur
  • að nú komi Í ljós hvort það sé í raun og veru kreppa
  • að það sé jafn langt frá Reykjavík til Mývatns eins og til baka
  • að Katoom muni mæta á KTM 550 twostroke
  • ð viskí og vindlaklúbburinn mæti sterkur til leiks

Athugasemdir

Svæði

KKA Akstursíþróttafélag

Stapasíða 13c - 603 akureyri
Kt: 420296-2319 - Banki: 566-05-442538 - VSK nr. 91548