Nýársdagsferð 2009 ferðasaga

Nýársdagsferð 2009 ferðasaga
Norðan Hrappstaðaskála er Stórihnjúkur, Nóngil og Litlihnjúkur, undir þessum hnjúkum standa bæjirnir Ásláksstaðir, Bitrugerði, Bitra, Hraukbær og Hraukbæjarkot. (Hesjuvellir eru svona kannski rétt sunnan við Stórahnjúk).

Ferðasaga nýársdag.

Myndir úr ferðinni eru hér.

 

Myndir úr ferðinni eru hér.

Þann 1. Janúar 2009 lögðu upp frá Akureyri Finnur,  Þorsteinn og Orri.

Veður var stillt og frost um 3 gráður.     Farið var upp núverandi Hlíðarfjallsveg og svo beygt inn á þann gamla.      Bóndinn var búinn að fá nóg af vegum og skellti sér í Selgilið og geystist þar upp í miklum hliðarhalla,   ferðafélagarnir náðu ekki alveg beygjunni og enduðu í Sellæknum.    Haldið var upp fyrir Stórhæð sem er austur af Mannshryggnum.    Rétt er að staðsetja skálarnar í Hlíðarfjalli.    Þær eru þrjár.    Syðst er Hlíðarskál og er þetta vinsæll staður til að fara upp og niður,  fótgangandi og á snjósleðum.      Þar fyrir norðan er skíðasvæðið í Reithólaskál,  Hlíðarhryggur skilur að þessar skálar.     Nyrst er svo gríðarlega stór skál sem heitir Hrappstaðaskál.     Á milli Reithólaskálar og Hrappstaðaskálar er Mannshryggur og þar vorum við á fleygiferð í norðurátt.     Nyrst í Hrappstaðaskálinni reyndum við fyrir okkur með uppgöngu en komumst vægast sagt lítt upp fjallið í mjúkum snjónum.    Við héldum för okkar áfram norður eftir fjallinu og út fyrir Hrappstaðaskálina.      Stórihnjúkur (922 m) er fjallatoppur nyrst í skálinni,  ca.  1 km norðar er Litlihnúkur,  sjá mynd hér að ofan.      Sunnan í Litlahnjúk er Nóngilið,   sem er vinsæl umferðaræð snjósleða yfir í Krossastaðagilið.   

Farið er í hliðarhalla undir Stórahnjúk og norður í Nóngilið.   Hliðarhalli háir hjólamönnum ekki mikið ólíkt þeim greyjum sem ferðast þarna á snjósleðahlussunum.    Fyrir neðan Stórhnjúk og ca.  1 km norður eftir er sérkennileg gilskora sem heitir Skammagil og liggur hún samsíða brekkunni,  norður/suður.    Nyrst beygir gilið skarpt undan brekkunni beint í austur og heitir opið Skammagilskjaftur.

Við áttum ekki í neinum erfiðleikum með að komast hjá að enda ofan í Skammagilinu.     Við hjóluðum upp að Nóngili og þurftum að fara utan í Litlahnjúk til að komast upp því töluverður laus snjór var í gilinu.    Við fórum svo upp á Litlahnjúk og nutum þar útsýnis.   

Þegar í gegnum skarðið var komið og inn í Krossastaðagilið blasti við mikið útsýni, fjallasýn í allar áttir.

Mjög bratt var niður fyrstu brekkuna ofan á hjallann en þaðan og ofan í botn Krossastaðagils var enn brattara.     Við fórum svo upp með gilinu og komust upp úr því að vestan og upp á Hnjúkinn,  sem er hryggurinn sem skilur að Krossastaðagilið og Fossárdalinn og nær hann alveg upp að Bungu á Hlíðarfjalli.

Töluverður snjór var á Hnjúknum svo hjólin voru farin að kveinka sér verulega þegar við áttum skammt eftir ófarið upp á Vindheimajökulinn.     Við ákváðum að snúa við til að ofgera ekki tækjunum.      Við fórum sömu leið til baka og ofan í gilið.        Áreynsla var að komast upp aftur hinum megin.     Laus snjór var í brekkunum og eina leiðin upp var að naga sig fram og til baka,  kriss krass á ská og skjön og það hafðist að lokum.      Gott færi var í síðustu brekkunni og því auðvelt að fara þar upp og að Nóngilinu.       Við fórum svo suður (Hrappstaða)Skálabrúnirnar og svo Hesjuvallabrúnirnar.      Leituðum við að heppilegri  leið niður eftir,   reyndum að fara með Hesjuvallarlæknum en það var ekki hægt.    Við héldum sunnar í hlíðinni.       Við hittum á farveg Merkjalækjar sem gekk vel.     Þar komum við ofan í Merkjagrófina eða bara Grófina en þaðan er vegur niður á  Lögmannshlíðarveginn,  kemur niður rétt norðan við beygjuna hjá Lögmannshlíðarkirkju.     Kertið gaf sig á reykbombunni hans Finns og var hann dreginn til byggða.      Myndir úr ferðinni eru hér.

Janúar 2008

Þorsteinn Hjaltason.


Athugasemdir

Svæði

KKA Akstursíþróttafélag

Stapasíða 13c - 603 akureyri
Kt: 420296-2319 - Banki: 566-05-442538 - VSK nr. 91548