Flýtilyklar
Ökumannstryggingar falla niður á torfærutækjum um áramótin.
Ný umferðarlög taka gildi 1. janúar 2020. Ákvæði um fébætur og vátryggingar voru sett í sérstök lög sem heita Lög um ökutækjatryggingar og taka gildi á sama tíma. Í 11. gr. eru létt bifhjól í flokki I og torfærutæki undanþegin vátryggingaskyldu. Þetta þýðir t.d. slysatrygging ökumanns verður ekki á vélsleðum, ekki á krossurum, ekki á mörgum böggí bílum og fjórhjólum. Sem sé engin ökutæki á rauðum númerum hafa slysatryggingu ökumanns. Þetta býður upp á ýmsar flækjur eins og t.d. að farþegi er tryggður nema hann sé eigandi, en ökumaðurinn aldrei. Trúlega er ekki búið að undirbúa slysatryggingar sem margar hverjar undanþiggja slys á vélknúnum ökutækjum. Launþegi sem slasast á vélsleða í vinnunni myndi þá t.d. ekki eiga rétt á greiðslu úr slysatryggingu launþega, því gert er ráð fyrir að hann eigi rétt úr slysatryggingu ökumanns sem verður ekki lengur fyrir hendi.
Óljóst er hvort tryggingarfélögin muni bjóða upp á slysatryggingar ökumanns með bótum skv. skaðabótalögum (þ.e. eins og verið hefur). Vonandi verður það gert og á viðráðanlegu verði. Slysatryggingar veita ekki sambærilega vernd. Þið þurfið að ræða þetta sérstaklega við ykkar tryggingarfélag. Skoða þarf hvaða tryggingakröfur verða gerðar á keppnum, það ræðst vitanlega af því upp á hvaða tryggingar tryggingarfélögin munu bjóða.
KKA hefur barist fyrir því að ökumannstryggingar verði á mototcrosshjólum og telur það mikið hagsmunamál fyrir iðkendur og reyndar líka félagið sjálft. LÍV og MSÍ gerðu margar athugasemdir við frumvarpið þegar það kom fram 2012, sbr. hér. Í þessum athugasemdum kemur fram hversu erfitt það getur orðið að reka motocrossbrautir í framhaldi af þessum breytingum o.m.fl. Frumvarpið lagaðist en Alþingi kaus að hafa þessar þrengingar á tryggingarvernd. Eftir margra áratuga vinnu tókst loks árið 1988 að tryggja alla aðila vegna hættu af vélknúnum ökutækjum. Með þessu er tekið skref aftur á bak hvað það varðar.
Fyrir utan þessi vandkvæði eru ýmis álitaefni varðandi tryggingar keppnistækja í lögunum en ekki verður farið nánar út í það hér að svo stöddu.
Athugasemdir