Flýtilyklar
Snjóferð sunnudaginn 14. des. 2008
Sunnudaginn 14. desember 2008 kl. 11.19 var lagt í hann. Leiðangursstjóri var Gunnar Hákonarson og fylgjendur hans voru Siddi, Bragi, Árni Grant og Þorsteinn. Villi var heima að skreyta jólatréið. Veður var stillt og kalt, himin heiðskír en sólarlaus. Farið var suður fyrir Glerá og upp Súluveginn, beygt til suðurs veginn upp að Fálkafelli, sem liggur um Langamel og svo upp að vörðunni á Vörðumel, og svo síðast upp á Háubrekkuhjallann þar sem Fálkafell stendur. Frá Fálkafelli er stundum farinn vegurinn upp Glerárdalsöxl sem liggur m.a. að rústum Skíðastaða. Nú var landið hins vegar snæviþakið og því ákveðið að fara suður að Hamrahausnum, sem er rétt sunnan við Fálkafell, og þar í gegnum vik sem heitir Klaufin og þar upp á Súlumýrarnar og að hliðinu á girðingunni og þaðan var það 6. í botni upp að giljunum neðan við Ytri-Súlur. Þar var hinkrað eftir Valda og Knúti en þeim hafði leiðangursstjórinn gleymt heima. Menn léku sér í giljunum og barst leikurinn upp að Djúpagili en þá tók leiðangurinn stefnu á Lamba, sem stendur syðst í mikilli hólaþyrpingu sem heitir Grenishólar. Færið var frekar mjúkt en menn höfðu vonast eftir hjarni eftir síðustu hlýindi og frost en það hafði snjóað í millitíðinni þannig að hjarnið gekk ekki eftir. Gegnt Lamba undir Tröllahryggnum er stór og mikill hóll er heitir Haus. Næst var farið yfir Glerána og með því Ytridalur yfirgefin og hjólað inn í Syðridal. Var farið upp skorninginn sunnan við Hausinn þar sem Fremri-Hauslækur liggur nú botnfrosinn. Þaðan var farið upp á Hausinn og þaðan upp annan skorning, sem Ytri-Hauslækur hefur dundað sér við að grafa í gegnum tíðina. Leiðangurinn var þá staddur undir Tröllunum. Tröllin eru 30-40 metra háir steindrangar úr svörtu basalti, leifar af berggangi, sem hefur staðið betur af sér veðrunina í Glerárdalnum en mjúkt Líparítið. Tröllafjall dregur nafn sitt af þessum steindröngum. Þá var slegið í fákana og geist yfir Tröllaskeið og svo yfir beinfrosið djúpt stöðuvatn sem yfirleitt er bara nefnt Vatnið (eða Tröllaspegill á seinni árum, sem er tilkomumeira enda skemmtilegt að sjá Tröllin speglast í Vatninu á góðum degi.) Leiðangurinn skellti sér svo ofan í Fremri-Lambárdal og upp hlíðina hinum megin og að Svitaskarði eða Þverskarði sem er á milli Fremri-Lambárdals og Heimari (því hann er nær heima)- Lambárdals. Gunnari fannst hann gera hetjulega tilraun til að komast upp en hinir sáu aldrei almennilega hvort hann lagði af stað eða ekki, enginn kunni við að fara lengra upp gilið en Gunnar, svo haldið var niður eftir. Farið var niður dalinn norðan Lambárinnar og komið að Glerá þar sem Skiphóll er. Áin var opin, töluvert vatn og straumur í henni, klakabrynja í botninum en annars full af krapa og ís. Til að fá allt fyrir bensínpeninginn og sem mest út úr ferðinni, sem hafði verið fulltíðindalítil að mati leiðangursstjóra valdi hann sér eftir örlitla umhugsun straumharðasta og dýpsta staðinn sem völ var á. Hinir leiðangursmenn sáu hvað verða vildi og flýttu sér af staðnum og niður eftir ánni í leit að öðrum stað til að drukkna á. Þar sem að Gunnar er í miðri málningarvinnu við íbúð Þorsteins sá hann sína sæng upp reidda og hélt til baka til að huga að honum. Viti menn fljótlega sást stór strókur krapa og vatns stíga upp yfir næsta leiti. Fljótlega kom Gunnar í ljós í miðri ánni og braut af honum vatnsstraumur og krapi. Þorsteinn neyddist út í á og drösluðu þeir í sameiningu hjólinu upp á bakkann. Þorsteinn óð svo ána til baka og hugðist sýna stjóranum hvernig ætti að gera þetta. Örskömmu síðar tók Þorsteinn sundtökin í ánni en áður en hann stakst í krapann náði hann að drepa á hjólinu, enda alvanur í þessum aðstæðum, hann á marga vatns-sprungna-motora að baki. Nú var komið að Gunnari að vaða ána. Hann greip Þorstein á hnakkadrambinu undan hjólinu og togaði hann upp á bakkann og hafði hjólið hans með sér í hinni hendinni. “Þetta kalla ég viðburði”, sagði þá Gunnar ánægður og bætti svo við “nú er þetta orðið gott, förum heim.” En það var nú ekki hlaupið að því. Hjólin voru fullkomlega frosin föst. Startsveifin óhreyfanleg á KTM 250 hjólinu hans Þorsteins og kom hvorki frá því hósti né stuna. Bergurinn hans Gunnars var pínu vatnsósa en hóstandi, sem var góðs viti. Fljótlega komu hinir leiðangursmennirnir á staðinn hinir rólegustu höfðu fundið fína staði til að fara yfir. Nema Siddi sem þurfti endilega af einstakri ónærgætni að hjóla yfir eins og ekkert væri á sundstaðnum þeirra Gunnars og Þorsteins. Þorsteinn var farinn að huga að gönguferð til Akureyrar þegar kom í ljós að ekkert vatn var inná motornum, olían var kolsvört. Það var bara allt frosið fast sem frosið gat. Siddi kom hjólinu í gang en það gekk bara hægagang. Pústuðu þá hin hjólin heitu á blöndunginn og fljótlega fór það að ganga betur. Ísvari var í bensíninu. Bensíngjöfin var þó nær föst, þurfti að taka svo á henni til að ná að snúa henni að fljótlega losnaði handfangið og stakk Þorsteinn því bara í vasann. Haldið var til byggða og var það pínu skrikkjótt ferð hjá Þorsteini en gekk þó bara þokkalega vel, sérlega gekk honum greiðlega niður fyrstu brekkuna enda kom í ljós að allar bremsur voru frosnar og hjólið algerlega bremsulaust. Hér eru myndir úr túrnum.
Athugasemdir