Flýtilyklar
Vaðlaheiði þjóðvegur um Steinsskarðið
Fyrir nokkrum dögum síðan áttu 5 félagar í KKA leið um gamla þjóðveginn um Vaðlaheiði. Verið var að reka fé á fjall og drógu hjólamennirnir strax úr hraða og töldu sig fara varlega um svæðið. Þeir héldu svo för sinni áfram til byggða þar sem lögreglan stöðvaði þá en gerði engar athugasemdir þar sem öll hjólin voru lögleg og réttindi í lagi.
Þetta atvik varð til þess að forsvarsmenn KKA sáu ástæðu til að biðja um fund með bóndanum sem í hlut átti.
Hér á eftir er stutt fundargerð fundarins, sem haldinn var í dag 25. júní 2007 kl. 18:00:
Fundurinn hófst með því að bóndinn og aðrir hlutaðeigendur voru beðnir afsökunar á öllu ónæði sem honum hafði verið valdið. Bóndinn sagðist vilja taka það fram að sögur fjölmiðla væru afskaplega ýktar og úr lagi færðar. Það væri t.d. ekki rétt sem sagt hafði verið í fjölmiðlum að hjólamenn hefðu ekið í veg fyrir þá og spænt yfir þá möl, ennfremur væri ekki rétt að það hafi þurft að tína upp eftir hjólamenn hryggbrotin lömb og hjólamenn hafi valdið stórfelldu tjóni á landareignum þeirra.
Málið er það, að þegar rekið er á fjall væru rollurnar ansi æstar og hlypu frá lömbum sínum og þyrfti með gætni að koma lömbunum til þeirra aftur. Öll truflun væri ekki til bóta. Motórhjólamennirnir hefðu valdið truflun með akstri sínum um þjóðveginn. Þeir hafi þó vafalaust ekki gert sér grein fyrir viðkvæmu ástandinu. Forsvarsmenn motorhjólamanna sögðu að þeir myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að þetta myndi ekki koma fyrir aftur. Ákveðið var að bændur létu KKA vita þegar rekið er á og af fjalli og KKA lætur boð út ganga til félagsmanna sinna um að aka ekki þjóðveginn í Vaðlaheiði (þ.e. gamla veginn um Steinsskarðið) þann dag og nokkra eftir það til að leyfa kindunum að jafna sig og lömbunum að ná mæðrum sínum. KKA sagðist myndi koma því inn á heimasíðu sína og til félagsmanna sinna með öllum ráðum að aka þjóðveginn gætilega því þar væru kindurnar oft á tíðum allt sumarið þ.e. í og við beygjurnar. Ennfremur voru rædd málefni eins og akstur um slóða um heiðina o.fl. Fór vel á með mönnum og var fundurinn bæði mjög gagnlegur og ánægjulegur.
stjórn KKA.
Athugasemdir