Flýtilyklar
VS og KKA
Hjóladagur VS og KKA, sem haldinn var í braut VS við Sauðárkrók um síðustu helgi, tókst gríðarlega vel. Það hafði snjóað töluvert á Norðurlandi og sérlega mikið í byggð við Akureyri. Sumir veður- og færðarhræddir norðlendingar (lesist formaðurinn) voru því frameftir degi svartsýnir á að komast vestur. Það var ekki fyrr en allir bílar voru komnir til Sauðárkróks og Gunnar Hákonarson búinn að ýkja dagsbirtuna á Sauðarkróki í glampandi sólskin að formaðurinn þorði af stað og ók varlega vestur á þurru malbikinu. Formaðurinn hélt svo góðakstri sínum áfram í MX brautinni en ferðafélagi hans Ísak, stundum nefndur Kasí, var búinn að fá nóg af rólegum akstri þann daginn, setti nöðruna í botn og stangaði fósturjörðina harkalega á fyrsta hring. Hann var fluttur á sjúkrahús á Sauðarkróki og þótti mönnum hann töluvert undarlegur og var hann sendur til Akureyrar þar féll hann betur í hópinn en samt ekki nægilega þannig að hann var sendur í höfuðrannsókn til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Menn voru orðnir ansi órólegir yfir þessu og varð því mikil gleði þegar fréttist norður að í ljós hefði komið í sneiðmyndatökum að allt var með eðlilegum hætti, drengurinn væri vissulega töluvert undarlegur en vitanlega væri ekki við öðru að búast hjá afkomendum Gumma Hannesar. Allt fór því vel og fær Ísak skammir dagsins fyrir að skjóta okkur svona skelk í bringu.
Skemmst er frá því að segja að margir komu til að hjóla, veðrið var frábært og Sauðkræklingarnir enn betri. VS var með námskeið í brautinni fyrir þá sem vildu og nýttu sér það margir. Brautin er mjög skemmtileg og fjölbreytt.
Athugasemdir